Jörðin

Jörðin Hindisvík stendur yst á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra og er kennd við samnefnda vík. Hún er falleg annesjajörð í miðjum Húnaflóa með sjónlínu beint í átt að norðurheimskautsbaug. Næsti kaupstaður, Hvammstangi, er miðstöð byggðarlagsins.

Hindisvík er í einkaeign og eina jörðin á Íslandi sem ber þetta nafn.

Hindisvík

Eigendur

Eigendur Hindisvíkur eru beinir afkomendur hjónanna Jóns Sigurðssonar og Margrétar Jóhannesdóttur sem komu í Vík árið 1837.

Þeir eru: Anna Norland og Helga Norland, dætur og erfingjar Gunnars Norland og Jósefínu Norland; Kristín Norland, Jón Norland og Halla Norland, börn og erfingjar Sverris Norland og Margrétar Norland.

Fugl

Sögubrot

Séra Sigurður Norland, bróðir Jóns Norland læknis, afa núverandi eigenda Hindisvíkur, var þekktur maður á sinni tíð og muna ýmsir núlifandi eftir honum enn.

Séra Sigurður keypti Hindisvík af móður sinni Helgu Björnsdóttur vorið 1919. Hann fékk veitingu fyrir prestakallinu Tjörn á Vatnsnesi í lok árs 1922.

Séra Sigurður hóf friðun sela í Hindisvík upp úr 1940 en hann var einnig þekktur fyrir að eiga mikið hestastóð af hinu svokallaða Hindisvíkurkyni. Það kyn var landsþekkt en skipulagðri ræktun þess í Hindisvík var hætt fyrir alllöngu. Þar eru nú engir Hindisvíkurhestar lengur.

Séra Sigurður var skáldmæltur rétt eins og Jón bróðir hans og árið 1965 kom út bókin Nokkur kvæði og vísur eftir Sigurð.

Nokkrar vísur séra Sigurðar hafa orðið landfleygar, ekki síst hringhendan, sem hann orti á ensku, og hentar vel til að útskýra ferskeytluformið og afbrigði þess fyrir útlendingum:

She is fine as morn in May,

Mild, divine and clever,

Like a shining summer day,

She is mine forever.

Séra Sigurður lést árið 1971.

Hindisvík er náttúruverndarjörð og lokuð fyrir allri umferð ferðamanna og annarra óviðkomandi, meðal annars til að vernda dýralíf og viðkvæman gróður.

Undanfarin ár hefur landselum í látrinu fækkað umtalsvert. Samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunar er landselur við Ísland í bráðri útrýmingarhættu. Honum hefur fækkað um rúmlega 75% frá því að talningar hófust árið 1980.

Selir í hindisvík
Selir í hindisvík

Selurinn í Hindisvík er alfriðaður og hefur verið það marga áratugi. Selasetur Íslands, í samráði við landeigendur, stendur fyrir rannsóknum á sel í Hindisvík auk árlegrar talningar. Því er mikilvægt að menn virði lokunina og fari ekki inn á rannsóknarsvæðið. Með því leggja allir sitt af mörkum og gera vísindamönnum kleift að afla vitneskju um náttúrulega hegðun og útbreiðslu sela til lengri tíma.

Sýnið því umhverfinu virðingu.